Samantekt um þingmál

Viðskiptaleyndarmál

13. mál á 151. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að innleiða tilskipun ESB um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu viðskiptaleyndarmála og sjá til þess að kröfur tilskipunarinnar séu uppfylltar í íslenskum rétti. Að styrkja réttarvernd viðskiptaleyndarmála, gera handhöfum þeirra auðveldara að leita réttar síns og að einfalda stofnanaumgjörð á sviðinu með afnámi stjórnsýslueftirlits.

Helstu breytingar og nýjungar

Um er að ræða innleiðingu til­skip­un­ar (ESB) 2016/943 um viðskiptaleyndarmál. Auk innleiðingar á tilskipuninni eru lögð til ný úrræði til verndar viðskiptaleyndarmálum og lagt til að refsimörk verði hækkuð. Einnig er lagt til að eftirlit Neytendastofu verði afnumið. Þá er gert ráð fyrir afnámi stjórnsýslueftirlits með öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, lögum um neytendakaup, nr. 48/2003, lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, og lögum um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með breytingum sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskiptaupplýsinga (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra.

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Lov om forretningshemmeligheder  LOV nr 309 af 25/04/2018.

Finnland
Lag om företagshemligheter  10.8.2018/595.

Noregur
Lov om vern av forretningshemmeligheter (forretningshemmelighetsloven)  LOV-2020-03-27-15.

Svíþjóð
Lag om företagshemligheter ( 2018:558).


Síðast breytt 28.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.